
4 minute read
Fjölbreytileikinn og framtíðin í sjávarútvegi
Í pallborði sátu Elliði Vignisson, Erla Ósk Pétursdóttir, Guðmundur Kristjánsson og Ásta Dís Óladóttir en Edda Hermannsdóttir leiddi pallborðsumræðurnar.
Konur í sjávarútvegi rannsaka stöðu kvenna innan greinarinnar
Advertisement
Nýlega kynnti félagið Konur í sjávarútvegi niðurstöður rannsóknar sem félagið lét framkvæma með það að markmiði að kortleggja stöðu kvenna innan sjávarútvegsins með því að safna tölulegum upplýsingum um konur og kanna viðhorf til þeirra innan greinarinnar. Niðurstöður skýrslunnar voru gefnar út nú um miðjan febrúar. Rannsóknin var send á æðstu stjórnendur um 500 fyrirtækja í sjávarútvegi og tengdum greinum, en sambærileg rannsókn var gerð á vegum félagsins árið 2016 og voru niðurstöðurnar nýttar til samanburðar til þess að sjá hvort að það hafi orðið einhver breyting á þessu 5 ára tímabili. Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á opnum fundi félagsins í höfuðstöðvum Íslandsbanka á dögunum.
Helstu niðurstöður sýndu að í heildina hefur konum í greininni fjölgað í öllum flokkum, en sjávarútvegurinn hefur verið að búa til fleiri störf sem hefur leitt til fjölgunar bæði karla og kvenna. Fjölgun kvenna var helst í flokki framkvæmdastjóra en þar var hlutfallið 16% árið 2016 en er nú komið í 24% og þar virðast þau störf hafa færst til kvenna í auknum mæli, því eins og áður sagði fjölgaði körlum líka í öllum greinum nema í flokki framkvæmdastjóra. Könnunninn leiddi einnig í ljós að vinnustöðum sem hafa enga konu hefur fækkað verulega úr 27% 2016 niður í 12% árið 2021, en vert er að benda á að fjórðungur þessara fyrirtækja hafa færri en 5 starfsmenn. Konum sem sinna tækni- og sérfræðistörfum fjölgaði einnig en spurt var hvort að talið væri að sjálfvirknivæðing hefði áhrif á störf kvenna og töldu flestir, eða 86% að það myndi ekki hafa nein áhrif á stöðu kvenna, en þegar spurt var nánar út í þetta í opnum svörum kom fram að erfið störf í snyrtingu væru horfin og léttara álag á fiskvinnslufólki en á móti aukið álag hjá tæknifólkinu sem eru líka konur. Þegar spurt var um viðhorf til kvenna í greininni komu fram áhugaverð svör. Árið 2016 töldu 75% svarenda þörf á fleiri konum en árið 2021 var hlutfallið komið niður í 40%. Einnig voru karlar frekar á þeirri skoðun að fjölga þurfi konum í greininni. Agnes Guðmundsdóttir, formaður félagsins sagði í erindi sínu á fundinum ,,að þessar niðurstöður væru vert að skoða’’ og velti


Svandís Svavarsdóttir matvæla ráðherra
fyrir sér hvað lægi þarna að baki, telja konur að þeirra starf geti verið ógnað af annarri konu eða hvort að sjávarútvegurinn væri enn á þeim stað að það sé bara ein kona í hverri stöðu á hverjum stað, en þetta þyrfti að skoða betur.
Einnig benti Agnes á að talsvert vanti upp á jafnréttisáætlanir en 45% fyrirtækja með 25-100 starfsmenn voru ekki með slíkar áætlanir sem eru lögboðnar en þó skal taka fram að því fylgja engin viðurlög ef þessu er ekki framfylgt. ,,Það er okkar allra hagur að nýta kraft og hugmyndir allra í þessu samfélagi og án þeirra er sjávarútvegurinn að fara á mis við þekkingu og stjórnendur þurfa að taka ábyrgð,’’ sagði Agnes og benti á að fyrirtæki ættu að geta fylgt þessu án viðurlaga. ,,Er það ekki að fara gagnast okkar fyrirtækjum, menningu, verðmætasköpun, samkeppnishæfni, sjálfbærni og lengi mætti telja?’’ spyr Agnes.
Fjölgun kvenna í greininni er að eiga sér stað þó hæg sé. Mikilvægt sé að halda áfram að styðja við og efla konur í sjávarútvegi og skapa þannig öflugar fyrirmyndir fyrir konur í greininni. Markmiðið með félagi Kvenna í sjávarútvegi er að einn daginn verði ekki þörf á félaginu, en félagið leggur mikla áherslu á að hvetja konur til þess að sækja fram, vera áberandi og stíga fram með sínar hugmyndir. Með reglulegum viðburðum, fyrirtækja heimsóknum og fræðslum, hittast félagskonur reglulega og efla þannig tengslanetið, auka við þekkingu sína og víkka sjóndeildarhringinn.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra flutti opnunarerindi þar sem hún undirstrikaði mikilvægi rannsóknarinnar, ,,þetta er gríðarlega mikilvægt framtak því rannsóknir og þekking styðja við ákvarðanir, og ekki síst ákvarðanir stjórnvalda á hverjum tíma og þessi rannsókn rímar afar vel við þær áherslur um að hafa jafnréttismál í forgrunni við ákvarðanatöku og það á ekki bara við jafnréttis málaflokkinn heldur alla málaflokka og þar er sjávarútvegurinn ekki undanskilinn,’’ sagði Svandís.
Að lokum voru fjörugar pallborðsumræður. Þar veltu pallborðs gestir fyrir sér hvernig hægt væri að nálgast þennan vanda. Ásta Dís, dósent við Háskóla Íslands nefndi að víða erlendis tíðkist að fyrirtæki hafi arftakaáætlanir þar sem efnilegir starfsmenn eru þjálfaðir upp í að taka við stjórnendastörfum, og voru fundargestir almennt á þeirri skoðun að það væri heillavænna að fyrirtækin tæki ábyrgð og ynnu að því að jafna hlut kvenna frekar en með lagalegum inngripum.
Fleiri tóku til máls á fundinum en Jón Bjarki, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, fór yfir efnahagshorfur og tækifærin í greininni og Árni Oddur, forstjóri Marels, ræddi um mikilvægi fjölbreytileikans í víðu samhengi í verðmætasköpun fyrirtækisins og tækifæri til framtíðar í sölu og vinnslu á íslenskum fiski fyrir stækkandi millistéttar í heiminum. Að lokum kynnti Kjartan Smári nýjan fjárfestingarsjóð Íslandssjóða en honum er meðal annars ætlað að styðja við vöxt í víðu samhengi í sjávarútvegi. Í pallborði voru einnig Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss, Elín Ósk Pétursdóttir framkvæmdastjóri Marine Collagen, og Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims, sem skiptust á skoðunum undir digri stjórn Eddu Hermansdóttur samskiptastjóra Íslandsbanka.
Hægt er að horfa á upptöku af fundinum og lesa rannsóknina í heild inn á heimasíðu félagsins www.kis.is
